Umsögn FTA um fyrirhugaða breytingu á lögum um útlendinga
25. apríl 2025
FTA hefur skilað ítarlegri umsögn til Allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis vegna fyrirhugaðrar breytingar á lögum um útlendinga.
Með frumvarpinu er m.a. útvíkkuð heimild til afturköllunar alþjóðlegrar verndar auk þess sem dvalarleyfi á grundvelli svokallaðrar 18 mánaða reglu 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er afnumið.
Telur FTA að frumvarpið, sem fór ekki í gegnum neitt samráð áður en það var lagt fram á Alþingi, byggi á ýmsum skökkum forsendum, það sé haldið margvíslegum göllum og sé verulega óskýrt, og leiði til enn frekari afturfarar í réttindum umsækjenda um alþjóðlega vernd og flóttafólks á Íslandi.
Umsögnina má nálgast á eftirfarandi slóð, á vef Alþingis:
https://www.althingi.is/altext/erindi/156/156-937.pdf
Aðalfundur FTA 2024
23. apríl 2024
Aðalfundur FTA fór fram í húsnæði Háskólans í Reykjavík þann 23. apríl 2024.
Dagskrá fundarins fór fram skv. 4. gr. laga félagsins.
Fundarstjóri var kosinn Jón Sigurðsson og fundarritari var kosinn Albert Björn Lúðvígsson.
Skýrsla stjórnar var lögð fram og reikningar lagðir fram til samþykktar.
Ekki voru gerðar lagabreytingar.
Eftirfarandi ný stjórn var kosin á fundinum fyrir starfsárið 2024 - 2025.
Aðalmenn:
Jón Sigurðsson (formaður)
Albert Björn Lúðvígsson (varaformaður)
Vigdís Þóra Sigfúsdóttir
Gunnar Gíslason
Davor Purusic
Varamenn:
Bryndís Torfadóttir
Edda Hulda Ólafardóttir
Sunna Lind Höskuldsdóttir
Skoðunarmaður var kosinn Grímur Már Þórólfsson.
Voru allir meðlimir stjórnar kosnir með öllum greiddum atkvæðum fundarmanna
Félagsgjald vegna starfsárins 2024 - 2025 var ákveðið kr. 7500.
Fleira fór ekki fram á fundinum.
___________________________________________________________________________________
FTA kallar eftir ítarlegri rannsókn íslenskra yfirvalda á stöðu umsækjenda um alþjóðlega vernd sem endursendir voru til Venesúela 15. nóvember 2023
14. desember 2023
FTA kallar eftir forsvaranlegri rannsókn íslenskra yfirvalda á því sem átti sér stað við endursendingu ríkisborgara Venesúela til heimalandsins þann 15. nóvember sl. og að tekið verði til skoðunar hvort það sem átti sér stað hafi áhrif á meðferð þeirra mála sem nú eru til vinnslu hjá Útlendingstofnun og kærunefnd útlendingamála.
Eins og kunnugt er sneri stór hópur umsækjenda um alþjóðlega vernd frá Venesúela til heimalandsins þann 15. nóvember sl. með leiguflugi á vegum Útlendingastofnunar, Ríkislögreglustjóra of Frontex og fékk heldur betur óblíðar móttökur við heimkomuna.
Í stuttu máli má nefna eftirfarandi hluti sem FTA telur ljóst og óumdeilt eftir að hafa haft samband við marga úr hópnum og aðila tengdum þeim hér á landi að hafi átt sér stað við komuna til Venesúla:
a til Venesúela tóku venesúelsk yfirvöld, þ.m.t. vopnaðir lögreglumenn, á móti fólkinu.
b. Fólkið var ekki frjálst ferða sinna við komuna á flugvöllinn, heldur var því skylt að gefa sig sérstaklega fram við yfirvöld.
c. Fólkið þurfti að sæta löngum og ítarlegum viðtölum af hálfu fulltrúa venesúelskra yfirvalda.
d. Fólkinu var gert að skrifa undir tiltekin skjöl og óvíst er nákvæmlega um efni þeirra.
e. Fólkið var þvingað í bólusetningu.
f. Fólkinu var smalað í rútur þaðan sem þeim var fylgt af vopnaðri lögreglu í varðhald sem virðist hafa staðið yfir í tæpan sólarhring. Aðstæður í því varðhaldi voru slæmar og virkaði salernisaðstaðan ekki sem skildi.
Einnig kom fram í frásögnum margra að þeim hafi verið gert að skrifa undir pappíra. Þeim hafi verið bannað að taka myndir af þeim skjölum en telja margir þeirra að skjölin kunni að vera notuð síðar meir gegn fólkinu, hugsanlega verði unnt að nýta skjölin sem sönnunargögn gegn fólkinu í málum sem varði meint „landráð“, eða önnur sambærileg brot, fólksins gegn Alþýðulýðveldinu Venesúela.
Þann 4. nóvember sl. birti Dómsmálaráðuneytið frétt á vef sínum þar sem fjallað var um niðurstöður þeirrar rannsóknar sem ráðuneytið framkvæmdi í kjölfarið, sem virðist hafa verið fólgin í því að senda tölvupóst á hópinn. Af 180 manna hópi hafi borist 83 svör. Þau svör virðast að verulegu leyti staðfesta frásögn fólksins. Rétt er þó að staldra við það sem kom fram í tilkynningu ráðuneytisins, þ.e. að „Einhverjir sögðust hafa verið látnir skrifa undir skjöl en ekkert hefur komið fram um hvað var á þeim skjölum.“
FTA telur að það sem átti sér stað við komu fólksins til Venesúela hafi verið grafalvarlegt og ljóst sé að fólkið hafi verið sent í afar hættulega stöðu. Um sé að ræða alvarleg brot á borgaralegum réttindum fólksins. Sú framkvæmd að senda fólkið allt um borð í einu leiguflugi virðist þá hafa sett fólk undir smásjá venesúelskra yfirvalda.
FTA bendir á að þessi harkalega móttaka fólksins í Venesúela vakti mikla athygli og hlaut töluverða umfjöllun í fjölmiðlum, bæði hérlendis og erlendis. Það verður að liggja á milli hluta hvort að sú athygli hafi gert það að verkum að venesúelsk yfirvöld hafi ekki talið sér stætt að brjóta frekar gegn fólkinu en það er mat margra Venesúelamanna sem hafa haft samband við FTA að sú fjölmiðlaathygli sem mál fólksins hefur hlotið hafi mögulega gert það að verkum að venesúelsk yfirvöld hafi haldið að sér höndum. Í því er þó vitaskuld engin trygging til frambúðar.
Í gær, 13. desember, barst öllum starfandi talsmönnum í málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd tölvupóstur frá Útlendingastofnun þar sem fram kemur að ákveðið hafi verið að bjóða upp á annað beint flug frá Venesúela til Caracas í samstarfi við Frontex og að fyrirhugað sé að flogið verði um/eða eftir miðjan janúar. Efni þessa bréfs gefur sannarlega ekki til kynna að það sé mat íslenskra stjórnvalda að fólk sé sett í hættulega stöðu með því að vera sent með viðlíka hætti aftur til heimalandsins.
Sú rannsókn sem átt hefur sér stað af hálfu íslenskra yfirvalda um það sem átti sér stað 15. nóvember og afleiðingar þess er mjög takmörkuð. Að mati FTA er rannsóknin fjarri því að vera fullnægjandi til að afmarka hver raunveruleg áhrif þessa atburðar munu vera á líf fólksins. Það gefur auga leið að venesúelsk yfirvöld eru núna fyllilega meðvituð að öll þau sem voru um borð í flugvélinni reyndu að sækja um alþjóðlega vernd á Íslandi. Ítarleg viðtöl sem fólkið var neytt í og óljós skjöl sem þau virðast hafa verið þvinguð til að rita undir gefa sannarlega til kynna að venesúelsk yfirvöld hafi gengið úr skugga um að fá sem ítarlegastar upplýsingar frá fólkinu.
Þeir ríkisborgarar Venesúela sem leitað hafa til FTA og eru enn staddir hér á landi eru margir hverjir enn hræddari um stöðu sína í heimalandinu eftir það sem átti sér stað. FTA telur ljóst að íslensk stjórnvöld beri ríka skyldu á grundvelli rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 til að rannsaka í þaula þau atvik sem áttu sér stað 15. nóvember sl. og að metið sé hvort að tilefni kunni að vera til að endurskoða þá niðurstöðu sem birtist í nýlegum úrskurðum kærunefndar útlendingamála með tilliti til skilyrða viðbótarverndar skv. 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga nr. 08/2016. FTA hefur kallað eftir því við Útlendingastofnun, kærunefnd útlendingamála og Dómsmálaráðuneytið að þetta verði tekið til sérstakrar skoðunar.
___________________________________________________________________________________
Sameiginleg yfirlýsing 28 félagasamtaka vegna mannúðarkrísu
28. maí 2023
Sögulega stór hópur félagasamtaka stóð í síðustu viku saman að neyðarfundi til að ræða þá mannúðarkrísu sem upp er komin með framkvæmd nýrra útlendingalaga sem sviptir hóp fólks allri þjónustu. Samtökin höfðu áður gefið út yfirlýsingu þar sem lýst var áhyggjum af afdrifum, öryggi og mannlegri reisn þessa hóps og lýst yfir efasemdum um að framkvæmd laganna standist mannréttindaskuldbindingar sem íslensk stjórnvöld hafa undirgengist. Í framsögum fulltrúa samtakanna komu fram lýsingar á sárri neyð skjólstæðinga þeirra sem og skilaboð frá einstaklingum sem sviptir hafa verið allri þjónustu. Skýr samstaða var um mikilvægi þess að fresta framkvæmd þjónustusviptingarinnar þar til mannúðlegri lausn hefur verið fundin. Þá var ljós andstaða framsögumanna um hugmyndir um varðhaldsbúðir, sem viðraðar hafa verið í fjölmiðlum nýlega. Skorað var á stjórnvöld að nýta þekkingu og reynslu samtakanna sem og sjónarmið þeirra sem finna sig í þessum aðstæðum við lausn vandans. Samtökin munu áfram ræða saman og freista þess að fá svör stjórnvalda við þeim spurningum sem fram komu á fundinum.
Barnaheill – save the children
Biskup Íslands
EAPN á Íslandi
FTA - félag talsmanna umsækjenda um alþjóðlega vernd
Fríkirkjan í Reykjavík
Geðhjálp
GETA hjálparsamtök
Hjálparstarf kirkjunnar
Hjálpræðisherinn á Íslandi
Íslandsdeild Amnesty International
Kvenréttindafélag Íslands
Mannréttindaskrifstofa Íslands
No Borders
PEPP grasrót fólks í fátækt
Prestar innflytjenda og flóttafólks hjá þjóðkirkjunni
Rauði Kross Íslands
Réttur barna á flótta
Rótin
Samhjálp
Samtökin 78
Siðmennt
Solaris
Stígamót
Þroskahjálp
UN WOMEN
UNICEF
W.O.M.E.N. – samtök kvenna af erlendum uppruna
Öryrkjabandalag Íslands – heildarsamtök fatlaðs fólks á Íslandi
___________________________________________________________________________________
Ræða Jóns Sigurðssonar, formanns FTA á neyðarfundinum:
Við sem vinnum með lagaleg réttindi umsækjenda um alþjóðlega vernd á hverjum degi finnum vel fyrir neikvæðum áhrifum breytinga á Útlendingalögum sem nýlega voru samþykktar á réttindi skjólstæðinga okkar. Að okkar mati er um að ræða verulega afturför fyrir réttindi umsækjenda um alþjóðlega vernd. Sú staða sem komin er upp í málefnum þeirra sem hafa fengið lokasynjun er bara ein af alvarlegum og fyrirsjáanlegum afleiðingum af lagabreytingunum.
FTA telur það vera áfellisdóm yfir ríkisstjórn og Alþingi að samþykkt hafi verið breyting á Útlendingalögum sem hefur jafn íþyngjandi réttaráhrif án þess að nokkuð annað hafi verið gert til að tryggja réttindi þessa hóps. Dómsmálaráðherra talar nú í fjölmiðlum um að starfrækja svokallað lokað búsetuúrræði. Hún gengst við því að um sé að ræða það sem heitir á ensku „detention centre“ en virðist ekki tilbúin að viðurkenna sannleikann um það hvað felst í slíku úrræði. FTA telur verulega varhugavert og algjörlega tilgangslaust að starfrækja sérstakt úrræði með enn frekari takmörkunum fyrir fólk í þessari stöðu.
En fyrst þetta stendur til, af hverju var ekki búið að tryggja slíkt úrræði þegar farið var í lagasetningu sem gerði það að verkum að fólk endaði réttindalaust á götunni? Ég minni á að samkvæmt 76. gr. stjórnarskrárinnar ber að tryggja með lögum að fólki sé veitt aðstoð vegna örbirgðar og sambærilegra atvika.
Það er mikil einföldun og smættun á raunverulegri stöðu fólks sem hefur fengið synjun á verndarumsókn sinni að halda því fram að það geti bara „unnið með yfirvöldum“ í því skyni að snúa aftur til heimalanda sinna. Í því sambandi bendi ég á að það er alveg fyllilega ljóst að mat íslenskra yfirvalda er síður en svo alltaf lagalega rétt í þessum málaflokki eins og mörg dæmi hafa sýnt. En óháð viðurkenningu eða höfnun íslenskra yfirvalda á flóttamannastöðu fólks þá er ljóst að í næstum öllum tilfellum er gríðarlega erfitt, flókið og oftast hættulegt fyrir fólk að snúa aftur heim.
Þá eru líka dæmi um það að einstaklingar einfaldlega sitji fastir hér á landi og komist ekki burt, óháð aðstoð yfirvalda. Þetta er því ekki í öllum tilfellum spurning um að fólk neiti að horfast í augu við örlög sín og neiti að sýna samvinnu.
Að lokum spyr ég: Hvað ætla yfirvöld að gera ef sú staða kemur upp að verulega stór hópur fólks fái lokasynjun á umsókn sinni um alþjóðleg vernd? Þetta gæti vel gerst á næstu vikum ef svo fer að kærunefnd útlendingamála staðfesti breytt mat Útlendingastofnunar á aðstæðum í Venesúela. Eigum við von á því að mörghundruð umsækjendur um alþjóðlega vernd til viðbótar verði þá heimilis- og réttindalausir?
Þetta eru spurningar sem krefjast nauðsynlega svara.
___________________________________________________________________________________
Afstaða FTA til breytts mat ÚTL á stöðu mála í Venesúela
3. maí 2023
Stjórn FTA hefur kynnt sér breytta afstöðu Útlendingastofnunar til aðstæðna í Venesúela og telur að breytt mat stofnunarinnar á aðstæðum þar í landi standist ekki skoðun.
FTA ítrekar að kærunefnd útlendingamála komst síðast að því 18. júlí sl. að ekki væru skilyrði fyrir því að víkja frá því mati að umsækjendur um alþjóðlega vernd sem flúið hafa Venesúela eigi rétt á að hljóta viðbótarvernd hér á landi. Forsendur þess úrskurðar kærunefndarinnar voru m.a. þær að yfirvöld í Venesúela hafi framið kerfisbundið ofbeldi gegn eigin ríkisborgurum í því skyni að framfylgja stefnu sinni sem geti fallið undir skilgreininguna um glæpi gegn mannkyninu.
Óháð skýrsla Sameinuðu þjóðanna frá september 2022 staðfestir einnig að stjórnvöld í Venesúela hafi sannarlega framið glæpi gegn mannkyninu með aðgerðum sínum. Sjá umfjöllun hér:
https://www.ohchr.org/.../venezuela-new-un-report-details...
Skýrslan í heild sinni er aðgengileg hér: https://www.ohchr.org/.../A_HRC_51_43...
Hér er einungis um eina skýrslu að ræða en heimildir sem staðfesta hræðilegt ástand mannréttindamála í Venesúela eru fjölmargar og hlýtur hverjum sem kynnir sér þessi gögn að vera það ljóst að fólk sem þaðan flýr er í engum skilningi „efnahagsflóttafólk“ eins og gefið hefur verið í skyn. Efnahagsaðstæður þar í landi eru vissulega, fyrir tilstilli stjórnarhátta ríkisstjórnar landsins, skelfilegar og líf fólks gríðarlega erfitt þar sem það hefur verulega takmarkað aðgengi að öllum nauðsynjum og þjónustu. Þessar ömurlegu aðstæður eru samt ekki meginástæða þess að fólk hefur þörf fyrir vernd.
Sömu stjórnvöld ráða enn ríkjum í Venesúela undir stjórn sama einræðisherra. Engin gögn benda til þess að þessi stjórnvöld ætli sér allt í einu núna að taka upp á því að bera virðingu fyrir mannréttindum. Fólk á bersýnilega raunverulega á hættu á að verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð af hálfu yfirvalda þar í landi.
Loks er rétt að benda á að Útlendingastofnun ákvað að stöðva framgang allra mála umsækjenda um alþjóðlega vernd frá Venesúela í lok árs 2022. Umsækjendur um alþjóðlega vernd fengu þá að bíða svo mánuðum skipti í von og óvon áður en stofnunin ákvað að synja skildi umsóknum þeirra. Eins og áður segir telur FTA alveg skýrt að breytt mat Útlendingastofnunar standist enga skoðun, en óháð því mati þá er ljóst að sú aðgerð að stöðva framgang umsókna sem fram komu mörgum mánuðum áður en stofnunin tilkynnti um breytt mat sitt er sérstaklega ósanngjörn og ómannúðleg. Stofnuninni hefði að lágmarki borið að tilkynna um breytt mat sitt með tryggilegum hætti og hefði stofnunin þá í kjölfarið getað breytt mati sínu á framkomnum umsóknum eftir slíka tilkynningu. Þessar aðgerðir Útlendingastofnunar fela í sér gríðarlega íþyngjandi og afturvirkar ráðstafanir.
Með þessum aðgerðum stofnaði stofnunin að tilgangslausu til stóraukinna útgjalda sem m.a. eru fólgin í því að halda uppi þessum hópi, sem bannað er að vinna meðan umsóknir þeirra um alþjóðlega vernd eru til meðferðar, en eins og komið hefur fram er atvinnuþáttaka þessa hóps mjög há. Það skýtur sannarlega skökku við að kvarta sífellt og kveina yfir því hversu kostnaðarsamur þessi viðkvæmi hópur fólks er fyrir ríkið á sama tíma og stofnað er til fullkomlega tilgangslausra útgjalda í því eina skyni að geta synjað sem flestum um vernd.
FTA mun halda áfram að láta sig málið varða.
FTA, félag talsmanna umsækjenda um alþjóðlega vernd var stofnað í janúar árið 2023 af hópi fólks sem starfað hefur sem talsmenn.
Félagið hefur frá stofnun beitt sér fyrir hagsmunum umsækjenda um alþjóðlega vernd og flóttafólks á Íslandi auk þess að gæta hagsmuna félagsmanna sinna í tengslum við störf sín sem talsmenn.
Tilgangur félagsins samkvæmt lögum þess er eftirfarandi:
Að beita sér fyrir löglegri, faglegri og mannúðlegri málsmeðferð íslenskra stjórnvalda á umsóknum um alþjóðlega vernd á Íslandi, gæta hagsmuna félagsmanna og vera fulltrúi þeirra gagnvart stjórnvöldum og öðrum viðeigandi aðilum í þeim tilgangi.
Að stuðla að þekkingu félagsmanna á málum er lúta að alþjóðlegri vernd og flóttafólki.
Að vera vettvangur fyrir faglega upplýsingamiðlun og stuðning á meðal félagsmanna um mál er lúta að alþjóðlegri vernd og flóttafólki.
Hugtakið talsmaður er skilgreint í lögum um útlendinga nr. 80/2016 og nánar útfært í reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 en í lögum og reglugerð er einnig fjallað um hlutverk talsmanna og um réttindi umsækjenda um alþjóðlega vernd til réttaraðstoðar frá talsmönnum.
Í grófum dráttum eiga umsækjendur um alþjóðlega vernd rétt á gjaldfrjálsri réttaraðstoð frá talsmönnum á meðan mál þeirra er til meðferðar á stjórnsýslustigi. Hverjum umsækjanda er skipaður einn tiltekinn talsmaður sem ber ábyrgð á að veita réttaraðstoð í því tiltekna máli. Sá sem sækist eftir því að vera skipaður talsmaður þarf að uppfylla þau skilyrði að hafa lokið embættisprófi eða grunn- og framhaldsprófi í lögfræði eða hafa öðlast lögmannsréttindi.
Þau verkefni sem talsmenn sinna í þágu skjólstæðinga sinna eru m.a. eftirfarandi:
Að veita umsækjendum ráðgjöf um réttarstöðu þeirra.
Að mæta með umsækjendum í viðtöl hjá Útlendingastofnun þar sem umsækjendur greina frá ástæðum þess að þau sækja um alþjóðlega vernd hér á landi.
Að koma fram gagnvart Útlendingastofnun f.h. umsækjenda, m.a. með því að leggja fram lögfræðilegar greinargerðir og önnur gögn til styrktar umsóknar hjá stofnuninni.
Að móttaka ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum umsækjanda og kynna þær og réttaráhrif þeirra fyrir umsækjendum.
Að kæra neikvæðar ákvarðanir Útlendingastofnunar til kærunefndar útlendingamála og að koma fram f.h. umsækjenda gagnvart kærunefndinni með sama hætti og gagnvart Útlendingastofnun, m.a. með því að leggja fram lögfræðilegar greinargerðir og önnur gögn til styrktar kærunni.
Að móttaka úrskurði kærunefndar útlendingamála í málum umsækjanda og kynna þá og réttaráhrif þeirra fyrir umsækjendum.
FTA hvetur alla starfandi talsmenn til að skrá sig í félagið. Í krafti samvinnu talsmanna styrkjum við jafnt stöðu umsækjanda og talsmanna gagnvart hinu opinbera.
Aðildargjald að FTA vegna starfsárins 2024/25 var ákveðið 7.500 kr. á aðalfundi félagsins í apríl 2024.
Talsmenn sem ekki hafa þegar skráð sig í félagið eru hvattir til að senda tölvupóst á netfangið fta@fta.is og óska þar eftir skráningu. Félagsgjald verður í kjölfarið rukkað í gegnum heimabanka.
Hafa má samband við FTA með tölvupósti í netfangið fta@fta.is eða í gegnum facebook síðu félagsins, sjá facebook hlekk.
Lög FTA voru samþykkt á stofnfundi félagsins þann 9. janúar 2023 og eru þau svohljóðandi:
Lög
fyrir FTA, félag talsmanna umsækjenda um alþjóðlega vernd, skv. 30. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.
1. gr. Nafn og heimili
Félagið heitir Félag talsmanna umsækjenda um alþjóðlega vernd (FTA). Heimili félagsins og varnarþing er í Reykjavík.
2. gr. Tilgangur
Tilgangur félagsins er:
1. Að beita sér fyrir löglegri, faglegri og mannúðlegri málsmeðferð íslenskra stjórnvalda á umsóknum um alþjóðlega vernd á Íslandi, gæta hagsmuna félagsmanna og vera fulltrúi þeirra gagnvart stjórnvöldum og öðrum viðeigandi aðilum í þeim tilgangi.
2. Að stuðla að þekkingu félagsmanna á málum er lúta að alþjóðlegri vernd og flóttafólki.
3. Að vera vettvangur fyrir faglega upplýsingamiðlun og stuðning á meðal félagsmanna um mál er lúta að alþjóðlegri vernd og flóttafólki.
Tilgangi sínum hyggst félagið ná með því að:
a. Vera vettvangur félagsmanna til að bera upp mál sem varða tilgang félagsins og að eiga samskipti sín á milli um þau mál.
b. Veita íslenskum stjórnvöldum aðhald í málum er lúta að alþjóðlegri vernd og flóttafólki, m.a. með því að koma á framfæri við stjórnvöld afstöðu félagsins um þau mál og krefjast í nafni félagsins úrbóta eftir því sem við á.
c. Taka þátt í opinberri umræðu um mál er lúta að alþjóðlegri vernd og flóttafólki í því skyni að þjóna tilgangi félagsins, m.a. með því að veita umsagnir um frumvörp að lögum og reglugerðum á sviði málaflokksins. d. Eiga samstarf við alþjóðlegar stofnanir og félög, þ.m.t. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR), European Council on Refugees and Exiles (ECRE) og erlend félög og stofnanir sem hafa sambærilegan tilgang og félagið. e. Stuðla að fræðslu fyrir félagsmenn um mál er lúta að alþjóðlegri vernd og flóttafólki.
3. gr. Félagsaðild
Félagið skal vera opið lögfræðingum sem uppfylla skilyrði til að hljóta skipun sem talsmenn skv. 30. gr. laga um útlendinga og hafa lagt fram umsókn hjá stjórnvöldum til að hljóta slíka skipun.
Virkir félagsmenn á hverju starfsári félagsins eru þeir sem uppfylla framangreind skilyrði og hafa greitt félagsgjald skv. 6. gr. laga þessara.
4. gr. Aðalfundir og almennir félagsfundir
Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins. Aðalfund skal halda eigi síðar en 31. maí ár hvert og skal boða til hans með minnst tveggja vikna fyrirvara með tryggilegum hætti. Rétt til setu og atkvæðis á aðalfundi hafa virkir félagsmenn. Aðalfundur er löglegur sé rétt til hans boðað. Einfaldur 1 meirihluti mættra félagsmanna ræður úrslitum mála nema annars sé getið í lögum þessum. Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:
- Kosning fundarstjóra og fundarritara
- Skýrsla stjórnar lögð fram
- Reikningar lagðir fram til samþykktar
- Breytingar á lögum félagsins
- Ákvörðun félagsgjalds
- Kosning stjórnar og skoðunarmanns
- Kosning um rétt áheyrnarfulltrúa
- Önnur mál
Almenna félagsfundi skal halda þegar stjórn félagsins telur ástæðu til.
5. gr. Stjórn og stjórnarfundir
Stjórn félagsins skal skipuð fimm mönnum og þremur varamönnum kjörnum á aðalfundi úr hópi virkra félagsmanna til tveggja ára í senn. Formann skal kjósa sérstaklega á aðalfundi en aðra stjórnarmenn skal kjósa í einu lagi. Heimilt er stjórnarmönnum að bjóða sig fram til áframhaldandi setu. Aðeins mega sitja í stjórn tveir starfsmenn að hámarki frá hverjum lögaðila.
Á stofnfundi skulu tveir stjórnarmenn og tveir varamenn aðeins kosnir til eins árs.
Stjórnin skiptir með sér verkum og fer með málefni félagsins milli aðalfunda. Stjórnin gerir aðgerðaog rekstraráætlun til tveggja ára í senn þar sem verkefni og fjármögnun eru skilgreind eftir þörfum. Stjórn skal halda fundargerðir.
Aðalfundur getur samþykkt að veita viðeigandi aðilum sem þess óska rétt til að tilnefna áheyrnarfulltrúa á fundum stjórnar félagsins og getur það t.d. átt við um félög á borð við Mannréttindastofnun Háskóla Íslands, Mannréttindaskrifstofu Íslands og Rauða krossinn á Íslandi. Áheyrnarfulltrúi hefur málfrelsi og tillögurétt á fundum stjórnar en ekki atkvæðisrétt.
Stjórnarfundi skal halda eftir þörfum en þó ekki sjaldnar en fjórum sinnum á ári. Stjórnarfundi skal boða með tryggilegum hætti og hæfilegum fyrirvara. Formaður stjórnar boðar til stjórnarfunda. Stjórnarfundur er ályktunarfær ef meirihluti stjórnarmanna sækja fund. Afl atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundum. Nú eru atkvæði jöfn og ræður þá atkvæði formanns (varaformanns) úrslitum. Skylt er að boða stjórnarfund ef tveir stjórnarmenn óska þess.
6. gr. Fjármál
Reikningsár félagsins er almanaksárið. Prókúruhafi er stjórnarformaður og/eða aðrir sem stjórn félagsins veitir slíkt umboð. Meirihluti stjórnar ritar firmað.
Félagið aflar sér tekna með félagsgjaldi en stjórn er heimilt að leita annarra leiða til að afla félaginu fjármuna í þágu tilgangs félagsins. Ákvörðun um félagsgjald skal tekin á aðalfundi. Félagsgjöld skulu innheimt árlega.
Félaginu er ekki heimilt að taka lán eða stofna til skuldbindinga umfram venjulegan rekstrarkostnað.
Rekstrarafgangi/hagnaði af starfsemi félagsins skal varið í samræmi við tilgang félagsins.
7. gr. Lagabreytingar
Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi. Til þess þarf 2/3 greiddra atkvæða. Skal þess getið í fundarboði ef tillögur til breytinga á lögum verða lagðar fram á fundinum. Félagsmenn geta lagt fram tillögu að lagabreytingum með að minnsta kosti viku fyrirvara og skal stjórnin kynna þær fyrir félagsmönnum að lágmarki þremur dögum fyrir aðalfund.
8. gr. Slit félagsins
Félaginu verður ekki slitið nema á aðalfundi. Til þess þarf 4/5 greiddra atkvæða. Skal þess getið í fundarboði ef tillaga um slit verður lögð fram á fundinum. Verði félaginu slitið skulu eignir þess renna til málefna er tengjast tilgangi félagsins.
Lög þessi voru samþykkt þann 9. janúar 2023.
Núverandi stjórn
Stjórn FTA fyrir starfsárið 2024 - 2025 var kosin 23. apríl 2024 á aðalfundi félagsins og er svo skipuð:
Aðalmenn:
Jón Sigurðsson (formaður)
Albert Björn Lúðvígsson (varaformaður)
Edda Hulda Ólafardóttir
Gunnar Gíslason
Davor Purusic
Varamenn:
Bryndís Torfadóttir
Vigdís Þóra Sigfúsdóttir
Sunna Lind Höskuldsdóttir
Fyrri stjórnir:
Fyrsta stjórn FTA var kosin á stofnfundi félagsins 9. janúar 2023 og var svo skipuð:
Aðalmenn:
Jón Sigurðsson (formaður)
Ósk Elfarsdóttir (varaformaður)
Sunna Lind Höskuldsdóttir
Albert Björn Lúðvígsson
Þorbjörg Helga Þorgilsdóttir
Varamenn:
Claudia Ashanie Wilson
Skúli Sigurðsson
Bryndís Torfadóttir